Þegar verið er að ræða leikskólamál heyrist gjarnan hvað hann sér dýr fyrir samfélagið. Að sveitarfélög hafi bara ekki kost á að gera betur en þau gera. Í leikskólum hefur hins vegar borið við að fólk sé orðið þreytt á sínum vinnuaðstæðum t.d. í nýjum tölum frá RannUng þar sem m.a. streita á meðal leikskólakennara var rannsökuð. Við vitum að allir þurftu að herða ólar eftir hrun líka þeir sem höfðu ekkert hagnast á góðærinu og voru bara með nokkuð herta ól. En meira þurfti til.
Alvarleg staða í Reykjavík
Í Reykjavík var farið út í hraðar sameiningar leikskóla og dregið úr t.d. afleysingum. Leikskólakennarastéttin fékk að heyra hvað hún hefði það gott og nú ætti að taka á. Stöður sem styrktu leikskólann faglega og gáfu oft reyndum og vel menntuðum leikskólakennurum færi á að þróa sig á sínu sérsviði (verkefnastjórastöður) voru lagðar af, þær voru bruðl. Neysluhléið í Reykjavík var að mestu tekið af leikskólakennurum. Víða hefur verið erfitt að komast í undirbúning á dagvinnutíma. Framlag til yfirvinnu hefur minnkað, í borginni ríkti um tíma yfirvinnu- og ráðningarbann. Leikskólakennarar njóta ekki lengur forgangs með börn sín í leikskóla, það merkir að þeir eru lengur heima í foreldraorlofi og eða þeir færa sig til sveitarfélaga þar sem forgangur ríkir, eins og í Kópavog. Staða aðstoðarleikskólastjóra hefur breyst og víða að þeim saumað, þeim hefur fækkað og dregið úr starfi þeirra utan deilda. Allir í leikskólanum hafa hlaupið hraðar, sumir vegna þess að þeir trúðu því að leikskólinn væri svona dýr og mikil áþján fyrir skattgreiðendur. Að hann væri lúxsus.
Dýr leikskóli
Allt hefur þetta verið gert til að spara vegna þess að leikskólinn er svo dýr fyrir samfélagið. En hvað kemur í ljós. Í nýjum tölum frá borginni kemur í ljós að leikskólinn er á ÚTSÖLU. Að hver klukkutími í grunnskóla er um 60% dýrari en klukkustund í leikskóla. Að hvert leikskólabarn kostar 824 kr. á klukkutímann en hvert grunnskólabarn 1335 kr. á klukkutímann. Það kemur í ljós að með 6- 15 ára börnum eru fleiri stöðugildi en fyrir börn í leikskóla þar sem börn eru frá 18 mánaða til 5 ára. (Hér ætla ég ekki að fara í klassískan samanburð á fermetrum fyrir börn í leikskólum og grunnskólum sem eru leikskólanum mjög í óhag). Stundum þegar rætt er um mismuna á dreifingu á fjármagni milli leikskóla er borið við jafnræðisreglu, hvað með jafnræði á milli barna á mismunandi aldursskeiðum?
Þjónustustofnun
Foreldrar kvarta stundum undan því að leikskólinn sé ekki nógu mikil þjónustustofnun samt eru starfsdagar þar 235 en í grunnskólanum eru þeir 180, leikskólinn er opinn 11,1 mánuði en grunnskólinn 5,76 mánuði. Hvert barn er 1996 tíma í leikskóla á ári en 998 tíma í grunnskóla. Til að skila fullri vinnuskyldu þarf hver launamaður að skila 1800 vinnuskyldustundum og lágmarks orlof er 196 vinnuskyldustundir. 100% vinna og sumarorlof er sambærilegt meðalviðveru BARNS Á ÁRI Í LEIKSKÓLUM. Svo er kvartað undan skilningsleysi leikskólans við foreldra og atvinnulíf.
Það er ljóst að leikskólakennarar hafa ekki nema brot af undirbúning grunnskólakennara, til að undirbúa nærri tvöþúsund klukkutíma fyrir börn. Starfsaðstæður þeirra til að sinna þessum undirbúningi er líka mun lakari fyrir utan almennt starfsumhverfi
Ef ég væri leikskólakennari í Reykjavík væri ég öskuill. Nú fer í hönd fjárhagsáætlanagerð, vonandi sjá pólitíkusar að þeir hafa höggið of lengi og of fast í sama knérum. Leikskólinn á ekki að vera ÚTSÖLUVARA.
Hér er ekki ætlunin að gera lítið úr grunnskólanum aðeins að benda á samanburðinn og hversu óhagstæður hann er leikskólanum. Og þó svo hér sé fjallað um borgina eru tölur sennilega sambærilegar fyrir önnur sveitarfélög.
Erindi og glærur Kristínar Egilsdóttur fjármálastjóra mennta- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Svona bjartsýnismoli – þrátt fyrir þessar aðstæður hitti ég dag eftir dag leikskólakennara sem elska starfið sitt sem gætu ekki hugsað sér að gera neitt annað sem eru skuldbundnir börnunum og faginu.